Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Ekki bara slæmir tímar heldur þeir verstu

Ekki égÉg eyddi hluta úr deginum á námskeiði til að læra á nýtt forrit. Námskeiðahaldarinn sagði að minnsta kosti þrisvar ef ekki fjórum sinnum "á þessum síðustu og verstu tímum". Hún sagði þetta alltaf til að leggja áherslu á notagildi forritsins. Ég þorði ekki að spyrja hana nánar út í þessa síðustu og verstu tíma, en mig langaði það.

Tölfræði spurning dagsins

Hvað hefur STATA sem SPSS hefur ekki?

Bloggleysa

Fyrir um það bil tveimur vikum síðan dó fartölvan mín. Án nokkurra viðvaranna slokknaði á tölvunni minni. Ég leitaði til tölvusérfræðings í von um að hægt væri að ná eitthvað af gögnunum mínum tilbaka. En svo var ekki, það er allt farið. Ef einhver hefði spurt mig fyrir aðeins mánuði síðan hvað væri það versta sem gæti komið fyrir mig hefði ég einmitt sagt þetta, þ.a.s. að týna öllum gögnunum mínum. Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta er að mér finnst það bara svo merkilegt hvað þetta er samt lítið alvarlegt. Ég hef reyndar verið frekar dugleg við að senda mér hitt og þetta þegar ég hef verið að vinna að einhverju bæði heima og uppí vinnu. Þannig að ég á rosa mikið af dóti á netinu. En allar myndirnar mínar eru auðvitað farnar. Sem er svo sem ekki svo slæmt þegar maður er að vanda sig við að lifa aðeins fyrir hvert augnablik.

 

Ég hef því verið tilneytt til þess að eyða kvöldum mínum í annað en vinnu eða internet flakk síðustu tvær vikur. Ég hef þurft að hætta vinna þegar ég er ekki á skrifstofunni minni. Á kvöldin hef ég spilað við dóttur mína, lesið í bókum, spjallað við nágrannan minn, horft á sjónvarpið, grillað með góðum vinum og sett á mig svona konu andlits maska (af því að ég er einmitt kona). Og auðvitað er ég lukkulegri en ég hef verið í langan tíma, með mun minni vöðvabólgu og aðeins færri hrukkur undir augunum (sem er einmitt alltaf markmið í mínu lífi).

 

Núna er reyndar ekki að marka. Núna er ég að eyða kvöldinu mínu ein hérna á skrifstofunni. Mér líður bara svo vel hér. Ég er með skrifstofu á besta stað í bænum, með frábæru útsýni. Ekkert fer framhjá mér þegar ég er hér. Það kemst engin inn eða út af geðdeild án þess að ég verði þess vör út um gluggann minn. Sem er gott.

 

Nú gæti einhver haldið að boðskapur bloggfærslu minnar væri að það sé gott að slaka á og eyða tíma með þeim sem manni þykir vænt um. Og hann má svo sem alveg vera það líka. En ég ætlaði samt bara að minna mína fjöldamörgu lesendur á að taka backup. Siggi ætlar að setja nýjan harðadisk í tölvuna mína á morgun. Og þá get ég farið að blogga eins og vindurinn.  


Heimsendir

Í gærkvöldi dó tölvan mín. Ég veit ekki af hverju. Ég var ekkert að skoða neitt dónalegt á internetinu, ég var bara í mesta sakleysi að skoða bók á amazon. Í dag fór ég til Sigga og hann tilkynnti mér að ALLT á tölvunni minni væri horfið. Það var mín lukka að ég hugleiddi í morgun, og las andlega  uppbyggilega bók á kaffihúsinu í hádeginu. Því annars hefði ég fengið taugaáfall. Ég er í jafnvægi og veit að þetta verður í fína lagi. 

Planið var að skrifa um mikilvægar uppgötvanir mínar um ástina, en nú get ég varla gert það þar sem ég er tölvulaus. Ég er bara í heimsókn hjá fr.B.  Fr. B hjálpaði mér með þessar uppgötvanir. Það er dónalegt að hanga í tölvunni þegar maður er í heimsókn. Annars er fr. B bara að vaska upp. Það er nú heldur ekkert til fyrirmyndar. Hún hefur ekki einu sinni boðið uppá kaffi og súkkulaði.

Ok, verð að fara fr. B. er farin að beita þögninni.



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband