Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Facebook

Það er ekkert að marka vinafjölda á Facebook. Ég veit um einn gaur sem á um það bil 500 vini á Facebook en svo sá ég hann í bíó um daginn og hann var nú bara einn.

K

Stundum langar mig að baula. Ég læt það þó sjaldan eftir mér.

07.08.73

Ég á afmæli í dag. Ég hef ekki hugsað mér að halda veislu í tilefni dagsins. Það er nú samt alveg við hæfi að gefa mér afmælisgjafir. Mest langar mig í nýja búrku, helst í fjólubláum lit. Fjólublár er víst liturinn núna.



Grínstelpan mikla

Dóttir mín er mikil sögukona. Hún á það einmitt til að segja fólki sem við hittum sögur eða jafnvel brandara. Iðulega byrjar hún voða spennt með alveg hreint frábæra gamansögu tilbúna. En svo þegar hún er komin inní miðja sögu man hún ekki alveg eitthvað eitt atriði og byrjar þess vegna bara uppá nýtt. Ég held að hún voni að sagan muni rifjast betur upp fyrir henni ef hún segir hana aftur. Auðvitað þarf hún að útskýra á mjög nákvæman hátt tengsl sín við hverja einustu manneskju sem kemur fyrir í sögunni. Þegar þetta gerist stend ég og brosi breitt. Það sem gleður mig mest er að fylgjast með þeim sem er að hlusta. Best er þegar hún segir einhverju sem við þekkjum lítið sögu, einhverjum á hraðferð.


Kæru Íslendingar, ég óska ykkur öllum gleðilegra páska.

Minn kæri nágranni og vinkona fr. B var rétt í þessu að hringja í mig og bjóða mér með sér heim til foreldra sinna í Hnetusteik. Ég þakkaði gott boð en varð að afþakka þar sem ég er á leiðinni heim til hennar móður minnar í Svínasteik. Þar sem ég og fr. B erum báðar ólofaðar og eldhressar eyðum við frekar miklum tíma saman. Við erum þó oft meira eins og hjón heldur en vinkonur. Okkur kemur vel saman og eigum margt sameiginlegt þrátt fyrir að vera líka að mörgu leyti ólíkar. Okkur finnst einmitt einstaklega gaman að ræða þjóðfélagsmálin þegar við sitjum við kvöldverðaborðið með dætrum okkar. Oft erum við sammála en stundum alls ekki. Þegar við erum ekki sammála minnum við okkur á það mjög svo ólíka uppeldi sem við fengum og segjum hvor annarri skemmtilegar sögur af æskuárunum. Á meðan fr. B hlustaði á Böðvar Guðmundsson, 30. mars, Vögguvísur róttækrar móður og aðrar krataplötur með foreldrum sínum, sat ég og hlustaði á hetjusögur um Albert Guðmundsson. Þegar ég var barn vissi ég ekki alveg hvað kommúnisti var en vissi þó að þeim var ekki með nokkru móti treystandi. Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég sá ókunnugt fólk hvort það væri svona kommúnistar og fannst erfitt að vita til þess að þeir gætu litið út eins og venjulegt fólk. Eða svona næstum því eins og venjulegt fólk, rauður fatnaður og dólgslæti voru alltaf í mínum huga sterkar vísbendingar um að halda sig í hæfilegri fjarlægð.

 

En núna er allt breytt. Núna erum við fr. B fullorðnar konur og látum skynsemi og góð rök ráða allri okkar ákvarðanatöku og skoðanamyndun.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband