Færsluflokkur: Sjónvarp

Það var ég

Ég hef hugsað um þetta síðustu daga og hef ákveðið að koma hreint fram. Já það var ég sem hringdi í Biskup og kvartaði yfir nýju Síma auglýsingunni. En ef ég hef örugglega ekki verið ein um það, enda er auglýsingin þannig að hún gengur fram af öllu siðmenntuðu fólki.

Það fékk verulega á mig að sjá þessa auglýsingu, og ég hef eiginlega ekki jafnað mig síðan. Ég hef til að mynda átt erfitt með svefn. Ég fór í búðina í gær að kaupa mjólk og áður en ég vissi af var ég farin að gráta á kassanum, bara við það eitt að hugsa um þetta ljóta mál.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég fer ofur sjaldan í kirkju sjálf. Samt sem áður hefur Síðasta kvöldmáltíðin alltaf skipað mikilvægu hlutverki í lífi mínu, og hún er síður en svo eitthvað sem á að gera gys að.

Nú segja sumir að sjálfur höfundur auglýsingarinnar Jón Gnarr sé sannkristinn. Ég á nú ansi bágt með að trúa því. Enda er hann í raun bara grínkall. Grínkall sem gerir grín af öllu. Er hann ekki bara að gera grín af Guði með því að segjast vera kristinn? Ég veit það ekki, en það virkar þannig á mig.

Þegar ég hringdi í Biskup og kvartaði yfir þessu leiðindarmáli var ég ekki eingöngu að hugsa um mig. Því við verðum alltaf að hugsa um þá sem ekki geta hugsað um sig sjálfir. Hvað með börnin? Gamla fólkið? Fatlaða? Fátæka? Landsbyggðarfólkið? Hvers á það að gjalda?

Nú er ég aftur farin að gráta.  


Prison Break

FangiÉg er hætt við að kaupa mér áskrift að Stöð 2. Ég komst að því að Prison Break er bara leikin spennusería en ekki raunveruleikaþáttur. 

Vörutorgið

Bowling AloneÉg var að lesa Bowling Alone eftir Putnam. Þetta er áhugaverð bók sem segir frá rannsóknum hans á félagsauði í Bandaríkjunum. Í bókinni fjallar hann meðal annars um hvernig sjónvarpsáhorf hafi dregið úr tengslum milli fólks, og líkir þáttum í sjónvarpi við skyndibita. Sjónvarpsáhorf veitir því einhverja fyllingu, en hún virkar bara í skamman tíma því hún er ekki raunveruleg næring. Að hans mati verður fólk háð sjónvarpsglápi eins og hverjum öðrum skyndibita, sem skerðir frelsi fólks. Hann reyndar tekur það fram að sjónvarpsefni hafi mismunandi áhrif, ekki sé allt jafn slæmt að þessu leyti. Hann bendir líka á að fólk sem kveikir á sjónvarpi til að horfa á einstaka þátt er mun betur stadd heldur en fólk sem kveikir á sjónvarpinu til dæmis þegar það kemur heim úr vinnu og slekkur á því þegar það síðan fer í háttinn. Það horfir bara á það sem er í boði, og er alltaf með sjónvarpið í bakgrunni. Það er þessi hópur sem Putnam hefur áhyggjur af.

Mér varð hugsað til orða Putnams á föstudagskvöldið þegar ég kom heim og kveikti á sjónvarpinu. Berverly Hills 90210 var á dagskrá, og ég horfði, svo kláraðist Berverly Hills og Vörutorgið tók við, og ég horfði. Ég horfði og velti því fyrir mér hvort fólk myndi í alvöru að panta þetta nýja æfingatæki, sem gefur víst grennra og íþróttamannslegra útlit án þess að viðkomandi þurfi nokkuð að gera. Ég hef heitið mér því að horfa ekki á Vörutorgið aftur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband