Ég er félagsfælin athyglissjúklingur.

Jæja, þá er ég bara mætt aftur á þetta margumtalaða internet, eða netið eins og sumir segja, eða interið eins og aðrir segja.

Ég sem sagt ákvað að læsa blogginu mínu um tíma og núna er það ekki læst lengur. Ég varð feimin. Ég fékk kjánahroll yfir þessu öllu saman. Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem það kemur fyrir. Þar sem ég er nær stöðugt með kjánalegar uppákomur fæ ég oft hroll. Það hefur ekki verið mér að skapi að blogga undir dulnefni og því fannst mér ég hálf berskjölduð stundum. Þó hef ég ekkert verið að blogga um hluti sem teljast vera neitt sérstakt feimnismál svo sem.

Núna hef ég áttað mig á því að á Íslandi búa mörg hundruð Margrétar og að minnsta kosti 14 þeirra eru dætur Valdimars. Ég er sú sem býr á landsbyggðinni.

Jæja hér sit ég lengst úti á landi að skrifa á tölvuna mína sem ég fékk í gjöf þegar að ég útskrifaðist úr landsbyggðarskólanum. Þorpið sló saman í svona líka fína tölvu. Mér var sagt að Jón og Gunna hefðu keypt hana í BT þegar að þau fór til Reykjavíkur síðasta haust.  

Ég er bara heima núna í litla sveitarhúsinu mínu. Þetta sveitarhús er bara svona eins og öll venjuleg sveitarhús sem þið sjáið örugglega stundum í íslenskum bíómyndum, eða í þættinum Út og suður. Hér bý ég með börnunum mínum 5 og manninum mínum, honum Herði. Hörður er núna að greiða sér, hann var að koma úr klippingu. Ég var að segja honum að hann hefði átt að nota ferðina suður og fá sér strípur í leiðinni. Hann brosti bara og sagði að þetta væri alveg laukrétt hjá mér, svo baðst hann afsökunar á því að hafa ekki áttað sig á þessu. Það er svo sem ekkert við þessu að gera núna. En það veldur mér óneitanlega gremju að hugsa til þess að ef hann hefði áttað sig á þessu væri maðurinn minn núna svona eins mennirnir sem maður sér í stundum í gamanþáttum í sjónvarpinu. Alveg er ég viss um að strípur fara honum Herði mínum rosalega vel. Þá myndu auðvitað allar sveitanágrannakonur mínar öfunda mig.

En jæja núna ætla ég að fara að gera hluti sem venjulegar landsbyggðarkonur eins og ég gerum á kvöldin.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að þú ert komin úr leyni. Ekki gleyma að mjólka kýrnar eins og allar sannar landsbyggðakonur gera.

Bergþóra (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 22:16

2 Smámynd: Vaff

Ertu að gera grín? Landsbyggðarkonur árið 2007 fara í Kaupfélagið og kaupa sína mjólk. Þú ert greinilega að reyna að setja mig útaf laginu, en það tekst ekki svo auðveldlega.

Vaff, 22.11.2007 kl. 10:05

3 identicon

Nei, þú sást í gegnum þetta gamla en hrikalega góða trix strax. Ekki amaleg landsbyggðarfrú.

Bergþóra (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband