Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Skrítin skrúfa

Ég vil ekkert segja en segi samt að einhver ráðherra sem ég vil ekki nefna á nafn en ætla samt að gefa í skyn hver er hafi sent mér skilaboð með leiðum sem ég vil ekki nefna en skilaboðin sem ég vil helst ekki segja hver voru voru mjög ámælisverð. Ef ég verð einhverntíman spurð út í þetta mál nánar þá mun ég ekkert segja, en reyndar er það sem ég hef verið að gera, þ.e. að segja ekkert, en ég vil endilega að þetta ekkert komist í fréttirnar þannig að allir vita að ég er ekkert að segja.

Takk fyrir mig.

Sigurbj...


skielgeyalsietlaeith

Ég hef álíka mikið umburðarlyndi gagnvart fólki sem talar um liðna atburði í nútíð og ég hef gagnvart fólki sem þarf að pakka sjálfu sér inní bómul. Þetta er asnalegt. Asnalegt er ekki töff.

Ég er ekkert endilega að tala bara um Auju núna. Ef einhver hélt það.  


Þjóðarsálin

Hvað eru allir að tala um að allt sé svo sexy þessa dagana? Fullorðið, vel menntað fólk að tala um að hitt og þetta sé sexy. Ég var t.d. á fundi í dag, fundi um háalvarleg málefni, þar sem maður sagði að reykingar kvenna á meðgöngu væru rosa sexy um þessar mundir. Engin sá neitt athugavert við málflutning mannsins. Þegar ég fékk skrítið augnráð frá fundargestum þegar ég hló af þessu langaði mig að segja: það var hann sem sagði sexy!

Ef ég væri þannig kona sem myndi hringja í síðdegisútvarpið myndi ég segja nákvæmlega þetta í dag. Ég myndi svo enda á að segja: mig langaði nú bara að koma þessu að, takk fyrir góðan þátt.


Konan sem bloggar í hverjum mánuði.

Á föstudaginn var ég rænd. En þar sem lögreglan brást strax við fékk ég kortin mín og allt annað strax tilbaka. Þjófarnir fóru nefnilega í næstu verslun til að kaupa sér samlokur, sem þeir hefðu borgað með mínu korti ef lögreglan hefði ekki skorist í leikinn. Ég var lögreglunni þakklát.

Á laugardaginn áttaði ég mig á því að ég væri ekki með veskið mitt, sama veski og hafði verið stolið frá mér fyrr á föstudaginn. Ég hringdi í Smárabíó þar sem ég vissi að ég hafði síðast notað það þar. Stúlkan sem svaraði tók niður símanúmerið mitt og sagðist hringja í mig tilbaka. Fimm mínútum síðar hringdi hún og sagði mér að hringja aftur eftir helgi, að hún hefði ekki fundið veskið mitt en væri samt ekki viss og að ég þyrfti bara að hringja eftir helgi. Ég hugsaði málið í smá stund og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri mjög svo undarlegt. Átti ég að láta að láta loka öllum kortunum mínum? Borða hrísgrjón í kvöldmat? Ég hringdi því aftur í Smárabíó og fékk í það skiptið að tala við vaktstjórann. Eftir að hafa eytt 15 mínútum í að útskýra fyrir vaktstjóranum af hverju ég væri að hringja tók hún líka niður númerið mitt og sagðist hringja tilbaka. Þegar hún svo hringdi tilbaka sagði hún mér að veskið væri hjá þeim og ég mætti koma að sækja það. Hún gat ekki gefið mér neina skýringu á því hvers vegna stúlkan sem svaraði fyrst í símann hafði viljað geyma veski mitt yfir helgina.  

Ef ég væri í svona The Secret pælingum myndi ég endurskoða hugsanir mínar vandlega. En þar sem ég er það ekki held ég að lausnin sé að fara sem minnst út úr húsi.


Ég er félagsfælin athyglissjúklingur.

Jæja, þá er ég bara mætt aftur á þetta margumtalaða internet, eða netið eins og sumir segja, eða interið eins og aðrir segja.

Ég sem sagt ákvað að læsa blogginu mínu um tíma og núna er það ekki læst lengur. Ég varð feimin. Ég fékk kjánahroll yfir þessu öllu saman. Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem það kemur fyrir. Þar sem ég er nær stöðugt með kjánalegar uppákomur fæ ég oft hroll. Það hefur ekki verið mér að skapi að blogga undir dulnefni og því fannst mér ég hálf berskjölduð stundum. Þó hef ég ekkert verið að blogga um hluti sem teljast vera neitt sérstakt feimnismál svo sem.

Núna hef ég áttað mig á því að á Íslandi búa mörg hundruð Margrétar og að minnsta kosti 14 þeirra eru dætur Valdimars. Ég er sú sem býr á landsbyggðinni.

Jæja hér sit ég lengst úti á landi að skrifa á tölvuna mína sem ég fékk í gjöf þegar að ég útskrifaðist úr landsbyggðarskólanum. Þorpið sló saman í svona líka fína tölvu. Mér var sagt að Jón og Gunna hefðu keypt hana í BT þegar að þau fór til Reykjavíkur síðasta haust.  

Ég er bara heima núna í litla sveitarhúsinu mínu. Þetta sveitarhús er bara svona eins og öll venjuleg sveitarhús sem þið sjáið örugglega stundum í íslenskum bíómyndum, eða í þættinum Út og suður. Hér bý ég með börnunum mínum 5 og manninum mínum, honum Herði. Hörður er núna að greiða sér, hann var að koma úr klippingu. Ég var að segja honum að hann hefði átt að nota ferðina suður og fá sér strípur í leiðinni. Hann brosti bara og sagði að þetta væri alveg laukrétt hjá mér, svo baðst hann afsökunar á því að hafa ekki áttað sig á þessu. Það er svo sem ekkert við þessu að gera núna. En það veldur mér óneitanlega gremju að hugsa til þess að ef hann hefði áttað sig á þessu væri maðurinn minn núna svona eins mennirnir sem maður sér í stundum í gamanþáttum í sjónvarpinu. Alveg er ég viss um að strípur fara honum Herði mínum rosalega vel. Þá myndu auðvitað allar sveitanágrannakonur mínar öfunda mig.

En jæja núna ætla ég að fara að gera hluti sem venjulegar landsbyggðarkonur eins og ég gerum á kvöldin.   


Andlegt ferðalag.

Heil og sæl kæra fólk,

ég hef snúið aftur heim. Undanfarnar vikur hef ég verið í andlegum æfingabúðum á Indlandi. Ég tók mig til og fór á námskeið í innhverfri íhugun og annarri tækni sem leiðir til andlegs þroska. Ég er nú um það bil helmingi þroskaðri en áður en ég fór, andlega. 

Núna þarf ég að fara í bað og fá mér spælt egg. Ég hef hvorki farið í bað né fengið mér spælt egg síðustu vikurnar. Það er aldrei að vita nema ég skelli inn eitt stykki ferðasögu hingað inn fljótlega. 

 

 


Sambúðin

Gat enginn varað mig við þeim sið hennar Frú Sigríðar að kveikja á kertum og spila Kenny G. öll kvöld?

Það hefði líklega engu breytt.  


Að lifa lífinu lifandi...

imagesÉg las einu sinni í bók, sem var svo bæði þykk og falleg, að allir búi yfir geysilega miklum hæfileikum en að margir vita því miður ekki hverjir hæfileikarnir eru. Ég hef sjálf eydd töluverðum tíma í að finna hvar ég get skarað fram úr. Það gleður mig að geta tilkynnt ykkur það hér og nú að mínir hæfileikar liggja í því að geta lesið flest fólk eins og opna bók. Ég er nokkuð sátt við þennan hæfileika minn. Sérstaklega er ég glöð þar sem hann ýtir undir leikni mína í mannlegum samskiptum.


07.07.07

Víhíhíhí.

Þvílík tilviljun að þessi dagur skuli hafa runnið upp. Ég ætla að gera eitthvað alveg sérstakt í tilefni dagsins. Eitthvað sem er svo sérstakt að þegar ég segi fólki frá því mun það segja „en sérstakt” með upphrópunarmerki. Það er mitt mat að þessi dagur sé  þó nokkuð meira sérstakur en 6. júní í fyrra.


Rosalega langt blogg

Katrín Anna sem hefur undanfarin ár starfað sem talskona Femínistafélags Íslands er að fara að snúa sér að öðrum verkefnum. Ég hef beðið með smá eftirvæntingu að sjá hver tæki við. Í dag komst ég að því að það er engin önnur en vinkona mín hún Auður Magndís. Þetta eru góðar fréttir því þessi unga kona er með einsdæmum klár, hugrökk og fyndin, rétt eins og Katrín Anna. Ég er nokkuð viss um að talskonu starfið sé ekki fyrir hvern sem er, að það þurfi alveg einstaklega sterka manneskju til þess að sinna því vel. Mér finnst Katrín Anna hafa staðið sig eins og hetja og hef trú á því að Auður muni geri slíkt hið sama.  

Ég hef stundum heyrt því fleygt fram að femínistar hafi aðeins skaðað jafnréttisbaráttuna. Þá hefur verið bent á einhver dæmi sem þykja ýkt eða sem einhverjum þykja skerða frelsi. Til dæmis hefur kona sem hefur doktorsgráðu í fjölmiðlafræði og starfar m.a. sem stundakennari við háskólann verið nefnd sem dæmi.

Samkvæmt skilgreiningu Femínistafélags Íslands þá er femínisti karl eða kona sem veit að jafnrétti hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Ég hef venjulega skilgreint mig sem femínista en finnst ég stundum ekki alveg falla undir skilgreininguna þar sem ég upplifi ekki að ég sé markvisst að vinna að jafnrétti alla daga. En ég er á þeirri skoðun að það sé ekki jafnrétti á milli kynjanna, og reyni eftir fremsta megni að bæta stöðuna og þá sérstaklega vera sjálf meðvituð.

Fullt af fólki skilgreinir sig sem femínista og fullt af fólki tekur þátt í starfi Femínistafélagi Íslands. Ég hef ekki sömu skoðun á öllum málum og allir femínistar, ég hef örugglega ekki sömu skoðun á því hver sé besta leiðin til þess að berjast fyrir jafnrétti og allir femínistar eða hvenær jafnrétti sé náð. En á meðan ég er ekki sjálf að koma með neina lausn, eða að berjast, þá finnst mér ég ekki vera í stöðu til að standa á hliðarlínunni og gangrýna aðferðir þeirra sem eru að gera það.

Ég er oft upptekin af forskriftum samfélagsins. Á sama tíma og mér finnst þær alveg sérstaklega áhugaverður geta þær líka valdið mér mikilli gremju. Þetta eru þær fyrirfram gefnu hugmyndir sem flest okkar hafa um eðlislægan mun á körlum og konum, sem ég tel að sé ekkert endilega til staðar. Þar sem ég er á fertugsaldri hef ég orðið þess vör að karlar og konur eru líkamlega ólík, og ætla ekki að þræta við nokkurn mann um það. Konur og karlar hafa líka oft ólíka persónueiginleika, en ég er þess fullviss að þar spilar félagsmótun stóran þátt. Margir karlar eru ólíkir mörgum konum, en margar konur eru líka ólíkar mörgum konum. Þessi gremja mín hefur orðið til þess að ég er ekki alltaf vinsælasta stúlkan í boðum þar sem ég sé mig iðulega tilneydda til að leiðrétta fólk þegar það byrjar með sína “karlar eru frá Mars og konur frá Venus” frasa.

Ég hef stundum spáð í því af hverju sumt fólk gagnrýnir aðferðir Femínistafélags Íslands af eins mikilli hörku og reiði og hefur stundum verið gert. Ég skil að það eru einhverjir sem telja að það sé jafnrétti sé núþegar til staðar og þess vegna þurfi ekkert að berjast fyrir því en ég skil samt ekki hörkuna í gagnrýninni. Sumir upplifa ef til vill að það sé verið að taka eitthvað frá því, t.d. aðgang að klámi eða hærri laun fyrir sömu vinnu.

Ég tel að svona almennt séð hafi starf femínista innan Femínistafélags Íslands vakið marga til meðvitundar um það að fólk verður að hafa frelsi til þess að hafna klámi. Þegar klám er út um allt, t.d. í auglýsingum, við kassann í 10-11 hefur fólk lítið frelsi til að velja það ekki. Eins verður fólk að fá að hafa frelsi til að gera það sem það langar til að gera óháð því hvort það teljist kvenlegt eða karlmannlegt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband